Þegar Vísir náði aftur af henni tali á öðrum tímanum í dag var fjölskyldan önnum kafin við að grafa sér leið að húsinu.
„Við erum að moka okkur inn núna. Það var aflétt upp úr klukkan tíu í morgun og þetta gengur bara ágætlega. Við erum enn að en þetta var líka orðið svolítið hart út af frostinu svo það er aðeins erfiðara að moka,“ segir Kittý.
Varla séð annað eins
„Þetta er með stærsta vetrarríki sem ég hef séð hingað til á þessum tíu árum sem ég er búin að búa hérna. Þetta er rosalega mikill snjór ef ég á að segja eins og er.“ Þá vill Kittý hrósa því góða fólki sem hefur verið önnum kafin við að moka um allan bæ ásamt björgunarsveitarfólki og fulltrúum Rauða krossins.

Rýma þurfti átta íbúðarhús á rýmingarreit fjögur í Patreksfirði í gærmorgun, þar á meðal hús fjölskyldunnar á Hólum 18.
Fimm manna fjölskyldan dvaldi í íbúð á öruggari stað í bænum á meðan rýmingin var í gildi. Nokkur ár eru síðan Kittý og fjölskylda sættu síðast rýmingu vegna snjóflóðahættu en þá voru þau nokkra daga í burtu.

Kittý sagði í samtali við fréttastofu í gær að samfélagið á Patreksfirði væri hálflamað í vetrarríkinu. Kolófært væri í öllum bænum og björgunarsveitin sæi um að flytja starfsmenn og börn heim úr grunnskóla og leikskóla. Í gær ríkti mikil óvíssa um það hvenær fjölskyldan fengi að snúa aftur heim.