Frá þessu er greint í færeyskum fjölmiðlum. Í viðtali segir Niclasen að hann hafi verið stöðvaður af lögreglu er hann var á leið í bakarí eftir að hafa drukkið áfengi kvöldið áður.
„Ég hafði verið að drekka kvöldið áður og í hugsunarleysi fór ég á bílnum í bakaríið morguninn eftir til að kaupa brauð. Ég var stöðvaður af lögreglu,“ sagði Niclasen í viðtali við færeyska miðilinn VP.
Áfengismagn í andardrætti Niclasen reyndist of mikið eftir að hann blés í mæli hjá lögreglu. Segist ráðherrann fyrrverandi hafa gert mistök sem hann sjái eftir.
Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, mun tímabundið taka við embætti fjármálaráðherra á meðan Fólkaflokkurinn, flokkur Niclasen þar sem hann gegnir formennsku, ræðir stöðuna.