Þrátt fyrir þá meginreglu að þinghald sé opið í dómsmálum hefur myndast ákveðin hefð um lokað þinghald í kynferðisbrotamálum. Brotaþoli í meðhöndlaramálinu sem fór fram á að þinghald yrði opið í hennar máli segir þessa hefð sérkennilega.
„Ef að ég hefði verið í lokuðu þinghaldi þá hefði ég ekki mátt vera viðstödd. Ég hefði ekki fengið aðgang að gögnum, ég hefði ekki vitað neitt um neitt og ekki vitað hvað færi fram. Auðvitað var rosalega óþægilegt að þurfa að segja sína sögu í smáatriðum með blaðamenn í salnum en ég tel ekki að mínir hagsmunir séu æðri hagsmunum samfélagins akkúrat í mínu máli,“ sagði Ragnhildur Eik Árnadóttir, lögfræðingur og brotaþoli í máli Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar.
Hún segir skiljanlegt að margir kærendur kynferðisofbeldis vilji lokað þinghald og að sjálfsögðu eigi að loka dyrum í þeim málum.
„Eins og í Danmörku eru þessi mál opin því það er meginreglan en ofsalega oft er dyrum lokað þegar brotaþoli er að gefa vitnaskýrslu út af því að það þykir óþægilegt fyrir brotaþola.“

Segir brotaþola ekki hafa áttað sig á möguleikanum á opnu þinghaldi
Tilgangur opins þinghalds er sá að samfélagið og sérstaklega fjölmiðlar eiga að hafa eftirlit með dómstólum.
„Þegar þú ert búin að taka heilan málaflokk út úr þessu eftirliti þá er mjög stórt tómarúm þar sem við vitum ekkert hvað sé að gerast. Það er ekkert eftirlit frá almenningi sem á að vera. Það var mjög erfitt að ég þurfti að fara fram á að þinghald yrði opið. Nú hef ég talað við brotaþola eftir á og þær áttuðu sig alls ekki á því að það væri möguleiki á öðru hvoru það var bara lokað.“
Óþægilegt að vita ekkert í eigin máli
Því segir hún nauðsynlegt að útskýrt sé fyrir kærendum kynferðisofbeldis hvað felist í lokuðu þinghaldi, þar sem að enn sem komið er séu þeir bara vitni í eigin málum.
„Ég hefði ekki getað ímyndað mér að fá ekki að vera viðstödd. Það hefði verið virkilega erfitt enda eru þetta heil réttarhöld þar sem er verið að tala um þig og þína manneskju og hvort þú sért að ljúga og allt svoleiðis. Það er rosalega óþægilegt að vita ekkert. Þú færð síðan bara dóm og veist ekkert hvaða rök er búið að færa fyrir hverju. Þú rænir svolítið brotaþola ákveðna yfirsýn yfir eigin máli og manni líður svolítið eins og maður skipti engu máli í þessu.“
Ragnhildur gagnrýndi það í fréttaauka í vikunni hve margar kærur voru felldar niður í meðhöndlaramálinu en ellefu af fimmtán málum voru felld niður og segir réttargæslumaður að í málunum hafi ekki bara verið orð gegn orði.