Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og eftir fyrsta leikhluta var allt jafnt, 24-24. Gestirnir frá Þorlákshöfn náðu þó yfirhöndinni í öðrum leikhluta og fóru með ellefu stiga forskot inn í hálfleikinn, staðan 55-44.
Heimamenn mættu grimmari til leiks í síðari hálfleik. Þeir söxuðu hægt og bítandi á forskot Íslandsmeistaranna og náðu að jafna í 70-70 þegar fjórar sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta.
Það voru þó gestirnir frá Þorlákshöfn sem reyndust sterkari í lokaleikhlutanum og þeir unnu að lokum góðan sjö stiga sigur, 95-88.
Luciano Massarelli var stigahæsti maður vallarins með 27 stig fyrir Þór frá Þorlákshöfn. Í liði heimamanna var August Emil Haas atkvæðamestur með 21 stig og 13 fráköst.
Þór Þorlákshöfn lyfti sér í það minnsta tímabundið á topp Subway-deildarinnar með sigrinum, en liðið er nú með 28 stig eftir 18 leiki. Þór Akureyri situr hins vegar sem fastast á botni deildarinnar með aðeins tvö stig og á ekki lengur möguleika á að halda sæti sínu í Subway-deildinni.