Klukkan hálf þrjú í nótt var ráðist á dyraverði á skemmtistað í miðbænum en tveir voru handteknir á vettvangi vegna málsins og vistaðir í fangageymslu. Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvort dyraverðirnir hafi slasast við árásina en málið er til rannsóknar.
Þá sinntu lögreglumenn frá lögreglustöð 4, sem sinnir Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ , útkalli þar sem tilkynnt var að ráðist hafi verið á dyravörð. Þegar lögregla kom á staðinn gat aðilinn ekki tjáð sig vitsmunalega og neitaði að segja til nafns. Var hann þá vistaður í fangaklefa.
Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um að maður væri að veitast að fólki skammt frá miðbænum. Maðurinn var vistaður í fangaklefa grunaður um gripdeild, eignaspjöll og brot á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg.
Fyrr um nóttina, skömmu fyrir miðnætti, hafði lögregla afskipti af dyravörðum á skemmtistað í miðbænum en þeir reyndust ekki vera með réttindi. Þá hafði lögregla eftirhald með skemmtanahaldi og reyndist rekstrarleyfi eins skemmtistaðar útunnið en staðnum var lokað í framhaldinu.
Nokkuð var um ölvaða einstaklinga í miðbænum en á tíunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um ofurölvi mann sem var að reyna að komast inn í biðfreiðar í austurbænum.
Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að ekki væri um að ræða tilraun til innbrots heldur var maðurinn aðeins of fullur til að komast heim og aðstoðaði lögregla hann við það.
Klukkan hálf eitt í nótt hafði lögregla síðan afskipti af ofurölvi manni í miðbænum sem braut bílrúðu en lögreglu reyndist ómögulegt að ræða við manninn. Var maðurinn þá handtekinn og vistaður í fangaklefa.