Escobar, sem er þrítugur og hefur spilað víða um heim, lék fótbolta hér á landi með Leikni Reykjavík á síðasta keppnistímabili.
Hann var í síðasta mánuði dæmdur sekur um nauðgun, í héraðsdómi Reykjavíkur, en brotið átti sér stað í september á síðasta ári.
Escobar hefur áfrýjað dómnum og segist í viðtali við Primer Toque saklaus.
„Það er mjög erfitt fyrir mig að vita að ég sé fordæmdur í heimalandi mínu án þess að fólk viti hvað gerðist. Það eyðileggur mig alveg,“ sagði Escobar og felldi tár.
En Exclusiva Andrés 'manga' Escobar habla sobre las acusaciones hechas en su contra.#PrimerToque pic.twitter.com/Xy5VTE5W15
— Win Sports TV (@WinSportsTV) March 14, 2022
„Ég er beittur órétti. Ég er saklaus af öllum ásökunum. Ég vil biðja um hjálp, annað hvort frá yfirvöldum eða einhverjum sérfræðingum, því ég hef ekki fengið sanngjarna meðferð. Vegabréfið mitt var tekið af mér ólöglega,“ sagði Escobar.
Í dómi héraðsdóms segir að Escobar hafi notfært sér ástand brotaþola, það hað hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar, og haft við hana samræði án hennar samþykkis þar sem hún lá illa áttuð í sófa á heimili hans.
Samningur Escobars við Leikni rann út við lok síðasta keppnistímabils og hann er því án félags. Hann dvelur nú í íbúð sinni hér á landi og er í farbanni þar til að mál hans verður tekið fyrir í Landsrétti.