Dæmi eru um að listamenn og fjölmiðlafólk hafi gagnrýnt innrásina og örfáir auðjöfrar sömuleiðis. Meðal ráðandi afla í Rússlandi er þó lítið um mótbárur gegn Pútín, tæpum mánuði eftir að innrásin hófst.
Þetta kemur fram í frétt AFP fréttaveitunnar. Þar er haft eftir Tatiönu Stanovaya, sem rekur greiningarfyrirtæki sem sérhæfir sig í málefnum Rússlands, að þó margir séu mótfallnir innrásinni og telji hana mistök séu fáir tilbúnir að grípa til aðgerða til að reyna að binda enda á hana.
„Fólk er í áfalli og margir segja þetta mistök. Enginn er hins vegar tilbúinn til að grípa til aðgerða. Allir eru að einbeita sér að eigin hag," sagði Stanovaya um pólitíska elítu Rússlands.
Vilja ganga harðar fram
Embættismenn í Vesturlöndum sem fréttaveitan ræddi við segja engin ummerki hafa sést um nokkurskonar undiröldu gegn Pútín. Helsta sjáanlega gagnrýnin í Rússlandi komi frá hægri öflum sem gagnrýna að Rússar séu að halda að sér höndum í Úkraínu.
Rússar hafa setið um heilu borgirnar í Úkraínu og gert umfangsmiklar loft- og stórskotaliðsárásir á þær, með tilheyrandi eyðileggingu og mannfalli meðal almennra borgara.
Stjórnarandstaða lítil sem engin
Fjölmiðlar í Rússland fylgja langflestir skipunum frá Kreml og pólitísk stjórnarandstaða er lítil sem engin. Þingflokkar Rússlands dansa allir eftir tónlistinni frá Pútín.
„Það er ekkert óvænt að við höfum ekki séð nein ummerki deilna meðal ráðamanna í Rússlandi,“ sagði einn sérfræðingur við AFP sem heitir Ben Noble.
„Vladimír Pútin hefur byggt upp kerfi þar sem hann er umkringdur hliðhollum mönnum sem deila sýn hans á heiminn um að Vesturlönd séu að reyna að eyða Rússlandi, eða mönnum sem eru of hræddir til að gera skoðun sína opinbera.“
Alexei Navalní, helsti pólitíski andstæðingur Pútíns, situr í fangelsi eftir að reynt var að myrða hann með sama taugaeitri og notað var gegn fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans. Navalní var sakfelldur fyrir frekari brot nú í morgun og er útlit fyrir að hann verði í fangelsi í þó nokkur ár.
Í hart gegn meintum svikurum
Í ávarpi þann 16. mars var Pútín myrkur í máli gagnvart fólki sem hann titlaði sem svikara. Hann sagði Vesturlönd ætla að reiða sig á slíka svikara til að veikja Rússland. Ríkið væri þó vel í stakk búið til að finna þá.
„Rússneska þjóðin mun ávallt geta greint sanna föðurlandsvini frá úrhrökum og svikurum og hreinlega spýta þeim út úr sér eins og flugu sem flýgur óvart upp í munn þeirra, hrækja þeim á götuna,“ sagði Pútín í ávarpinu.
Hann bætti við að hann væri sannfærður um að þessi „náttúrulega og nauðsynlega hreinsun“ myndi styrkja rússneska ríkið.