Biden flutti ávarp fyrir framan fjölda fólks í Varsjá, höfuðborg Póllands, nú í kvöld. Þar sagði hann meðal annars að hann teldi ekki að rússneskur almenningur væri óvinveittur Bandaríkjunum eða öðrum bandamönnum Úkraínu í stríðinu.
„Ég neit að trúa því að þið fagnið morðum á saklausum börnum, ömmum og öfum. Eða að þið samþykkið að spítalar, skólar og fæðingardeildir séu sprengd í loft upp af rússneskum sprengjum. Eða að borgir séu umkringdar svo borgarar geti ekki flúið, þeim neitað um vistir og reynt sé að svelta Úkraínumenn til hlýðni.“
Sagði hann þá að milljónir manna hefðu verið reknar á vergang vegna innrásar Rússa, þar af helmingur allra barna í Úkraínu.
„Þetta er ekki verk mikillar og góðrar þjóðar.“
Í lok ræðu sinnar vék Biden þá stuttlega að kollega sínum í austri, Vladímir Pútín.
„Í Guðs bænum, þessi maður getur ekki verið lengur við völd.“
Segja þetta ekki koma Biden við
Viðbrögð við ummælum forsetans hafa þegar borist víða að, meðal annars frá Kreml.
Fjölmiðlar vestan hafs greina frá því að talsmaður rússneskra stjórnvalda hafi einfaldlega sagt að það væri ekki undir Joe Biden komið að ákveða hver færi með völd í Rússlandi.
„Forseti Rússlands er kjörinn af Rússum.“
Þá hafa viðbrögð frá Hvíta húsinu einnig litið dagsins ljós, en ljóst er að þeim er ætlað að draga úr þunga yfirlýsingar Bidens.
BBC hefur eftir embættismanni innan Hvíta hússins að forsetinn hafi ekki verið að kalla eftir stjórnarskiptum í Rússlandi, heldur hefði hann meint að ekki mætti leyfa Pútín að beita valdi sínu gegn nágrannaþjóðum Rússlands.
Bent hefur verið á að ummæli Bidens kynnu að styrkja málflutning Pútíns sjálfs, sem löngum hafi talað á þeim nótum að Bandaríkin og fleiri vesturlönd vildu hann af valdastóli í Moskvu. Nú geti hann einfaldlega vísað til orða Bidens um þær áhyggjur sínar.