Fyrri leikur liðanna endaði með 1-0 sigri Alsír í Kamerún og kamerúnska liðið hafði því verk að vinna.
Eric Maxim Choupo-Moting kom Kamerún í 1-0 forystu eftir rétt rúmlega tuttugu mínútna leik og þannig var staðan þegar flautað var til hálfleiks.
Þannig var raunar staðan þegar venjulegum leiktíma lauk og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.
Ahmed Touba hélt að hann hefði tryggt Alsíringum sæti á HM þegar hann skoraði fyrir liðið á 118. mínútu. Það stefndi allt í að svo yrði, en á fjórðu mínútu uppbótartíma breyttist draumurinn í martröð þegar Karl Toko Ekambi tryggði Kamerún 2-1 sigur.
Samanlagt endaði einvígið 2-2, en Kamerún er á leið á HM á fleiri mörkum skoruðum á útivelli, en Alsíringar sitja hins vegar eftir með sárt ennið.