Þetta segir Kári Einarsson, kvikmyndagerðarmaður og nemandi í 10. bekk Laugalækjarskóla, en heimildarmynd Kára og þriggja félaga hans um hæfileikakeppnina Skrekk og þátttöku Laugalækjarskólans í henni verður sýnd í Laugarásbíói klukkan 16:30 á morgun.
Kári segir að þeir félagarnir hafi verið að klára vinnslu myndarinnar fyrr í kvöld. „Við erum flottir með fína frestunaráráttu. En þetta hafðist. Það er þá verið að „rendera“ hana núna „as we speak“ – ganga frá myndinni þannig að hægt sé að sýna hana í bíó á morgun. Við erum allavega mjög ánægðir með útkomuna og erum bara spenntir. “
Heimildarmyndin ber nafnið Skrekkur – á bakvið tjöldin, en að henni standa þeir Rommel Ivar Q. Patagoc, Orri Eliasen og Adam Son Thai Huynn, auk Kára. „Þarna er fylgst með Laugalækjarskóla að fara í gegnum Skrekksferlið. Við erum þarna saman hópurinn, búum til atriðið, og keppum í Skrekk. Myndin er því í raun um þátttöku Laugalækjarskóla í Skrekk.“
Sjá má stiklu myndarinnar að neðan.
Ótrúlega jákvæð áhrif
Kári segir að Skrekkur hafi ótrúlega jákvæð áhrif á þá sem taka þátt í hæfileikakeppninni. „Við gerðum könnun á því, fengum yfir þrjú hundruð krakka til að svara spurningum og komumst að því að yfir 80 prósent sögðust hafa kynnst einhverjum nýjum í gegnum Skrekk. Þetta er því að hafa ótrúlega jákvæð áhrif og við erum svakalega ánægð með þennan viðburð.“
Um er að ræða fjörutíu mínútna heimildarmynd sem verður heimsfrumsýnd í Laugarásbíói á morgun klukkan 16:30. „Við ákváðum að taka bíóið hérna í hverfinu á leigu og eins og staðan er núna þá verður það bara þessi eina sýning þó að myndin verði líklega sýnd á öðrum vettvangi síðar. En við leigðum þarna stærsta salinn og ætlum að sýna á morgun.“