Skrímslasetrið er í fallegu húsnæði á Bíldudal í Vesturbyggð. Þar inni er stórskemmtileg skrímslasýning, sem vekur alltaf mikla lukku hjá börnum og fullorðnum en sagan segir að mikið af allskonar sjóskrímslum hafi búið við Arnarfjörð á sínum tíma. Hönnun safnsins er einstaklega skemmtileg.
„Hér er haldið utan sögu þeirra og hvernig fólk hefur lifað með þeim í gegnum árin og reynt að ná þeim, til dæmis. Það er sérstaklega gaman að segja fólki frá því að maður hafi alist upp með sögum af þessum skrímslum og maður þekkti þau með nafni,“ segir Árný Rós Gísladóttir, skrímslastjóri safnsins.

En voru þetta allt vond og leiðinleg skrímsli eða var eitthvað þeirra gott?
Nei, ég held að þau hafi ekki verið vond en þau hafa kannski valdið mikum usla. Þau hafa valdið sjómönnum usla, það voru stór skrímsli sem fóru í skipin hjá þeim. En við eigum eitt skrímsli sem heitir Fjörulalli sem hefur líka sést annars staðar á Íslandi. Ég vil ekki meina að hann sé vondur. En hann reynir samt að lokka konur með sér út í sjó, og sérstaklega ef þær eru ófrískar en hann gerir það ekki með ofbeldisfullum hætti,“ segir Árný Rós.