Í tilkynningu þess efnis á vef borgarinnar segir að tilgangur félagsins, sem beri heitið Almenningssamgöngur ohf., sé að annast þróun, skipulag og rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með sjálfbærni að leiðarljósi. Reksturinn taki jafnt til leiðakerfis hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu.
Ríkið borgar þriðjung
Reykjavíkurborg verði stærsti hluthafi nýs félags. Skiptingin verður með þeim hætti að Reykjavíkurborg leggur fram 37,72 prósent í stofnfé, Ríkissjóður Íslands 33 prósent, Kópavogur 10,69 prósent, Hafnarfjörður 8,41 prósent, Garðabær 5,31 prósent, Mosfellsbær 3,65 prósent og Seltjarnarnesbær 1,22 prósent.
Nánar tiltekið leggi borgin hlutafélaginu til stofnfé að fjárhæð 377,2 milljónum króna, sem greiðist í átta mánaðarlegum greiðslum frá 1. maí. Stofnféð verði fjármagnað með lækkun á áætluðu rekstrarframlagi til Strætó bs. um sömu fjárhæð.
Í bréfi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til borgarinnar komi fram að gert sé ráð fyrir að málið verði afgreitt hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í þessum mánuði.
Stýrihópur unnið að stofnun síðan í desember
Í uppfærðum Samgöngusáttmála frá því í ágúst síðastliðnum hafi ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gert með sér samkomulag um að koma á fót félagi um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Stýrihópur hafi unnið að stofnun þessa nýja félags frá því í desember 2024. Tillögur liggi nú fyrir, þar á meðal hluthafasamkomulag og samþykktir. Stefnt sé að því að félagið verði stofnað í lok apríl.
Eftir stofnun félagsins verði skipað í stjórn félagsins og í framhaldinu unnið að frekari útfærslum, skipulagi félagsins, samningagerð og frekari áætlanagerð á vettvangi þess.
Stuðli að sjálfbæru borgarsamfélagi
Félagið muni meðal annars taka þátt í þróun uppbyggingar innviða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Betri samgöngur ohf.
Tilgangur hins nýja opinbera hlutafélags sé enn fremur „að stuðla að hagkvæmum hágæða almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, stuðla að því að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð, stuðla að auknu umferðaröryggi og að tryggja skilvirkt samstarf milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um trausta umgjörð á uppbyggingu hágæða almenningssamgangna,“ eins og segir í samþykktum fyrir hlutafélagið.