Hinckley skaut að Reagan þegar forsetinn kom út af hóteli í Washington þann 30. mars 1981 sem varð til þess að lunga forsetans féll saman og hann hlaut innvortis blæðingar. Þrír aðrir særðust í árásinni, þar á meðal James Brady, fjölmiðlafulltrúi forsetans, sem lamaðist.
Vildi heilla Jodie Foster með árásinni
Í réttarhöldunum yfir Hinckley var hann úrskurðaður ósakhæfur vegna geðrænna veikinda. Næstu þrjá áratugi sat hann inni á geðsjúkrahúsinu St. Elizabeths Hospital í Washington.

Árið 2016 fékk hann leyfi til að búa hjá móður sinni undir ströngum skilyrðum. Þar var hann undir eftirliti sálfræðinga, mátti ekki eiga byssu og mátti ekki hafa samband við fórnalömb árásarinnar né ættingja þeirra.
Þá mátti hann ekki heldur hafa samband við leikkonuna Jodie Foster en þegar hann réðist á forsetann hafði hann þróað áráttu fyrir leikkonunni og trúði því að árásin myndi heilla hana.
Engin merki um ofbeldisfulla hegðun
Í september á síðasta ári úrskurðaði alríkisdómarinn Paul Friedman að Hinckley yrði sleppt í júní ef hann uppfyllti ákveðin skilyrði og héldi áfram góðri hegðun sinni. Þann 1. júní síðastliðinn úrskurðaði Friedman að Hinckley yrði frjáls ferða sinna í dag, 15. júní.
After 41 years 2 months and 15 days, FREEDOM AT LAST!!!
— John Hinckley (@JohnHinckley20) June 15, 2022
„Ef hann hefði ekki reynt að drepa forsetann hefði honum verið sleppt skilyrðislaust fyrir löngu síðan,“ sagði Friedman á síðasta ári. Þá sagði hann að Hinckley hafi ekki sýnt nein merki um andleg veikindi, ofbeldistilburði eða áhuga á skotvopnum frá árinu 1983.
Semur ástarlög á Youtube og heldur uppselda tónleika í júlí
Hinckley býr enn í Virginia-fylki þó móðir hans sé látin og frá árinu 2020 hefur hann haldið úti tónlistarrás á YouTube þar sem hann syngur ástarlög. Síðastliðin desember lýsti hann því yfir að hann hygðist stofna plötuútgáfu.
Þann 12. apríl á þessu ári auglýsti Hinckley tónleika sem verða í Market Hotel í Brooklyn 8. júlí næstkomandi. Fjórum dögum eftir að hann auglýsti tónleikana voru þeir orðnir uppseldir.
Hér fyrir neðan má heyra Hinckley syngja frumsamið lag en á tónleikunum mun hann flytja 17 frumsamdra laga sinna: