Í samtali við Vísi segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, Ferðamálastjóri, að fundurinn hafi gengið vel, mikill vilji sé til samstarfs til þess að tryggja öryggi ferðamanna á svæðinu.
Umræða um öryggi ferðamanna í Reynisfjöru blossar reglulega upp, nú vegna banaslyss sem þar varð á dögunum þegar erlendur ferðamaður lést eftir að alda hreif hann út í sjóinn.
Alls hafa tólf alvarleg útköll borist vegna Reynisfjöru frá árinu 2014, þar af hafa fimm látist.
Karpað hefur verið um hvað standi úrbótum á öryggismálum á svæðinu fyrir þrifum. Bent hefur verið á landeigendur sem bent hafa á ríkið.
Vonast var til þess að hægt yrði að höggva á hnútinn á fundi í Vík í Mýrdal í kvöld þar sem saman voru komnir fulltrúar meirihluta landeigenda á svæðinu, Lilja Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála auk fulltrúar annarra stofnanna.
Ákveðið að hefja formlegt samstarf
Á fundinum kynntu fulltrúar Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar og almannavarnadeildar lögreglunnar á Suðurlandi vinnu við gerð áhættumats fyrir Reynisfjöru og hugmyndir um uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni. Íris Guðnadóttir, einn landeiganda kynnti hugmyndir um innviðauppbyggingu og hugmyndir að auknu öryggi í fjörunni.
Fundarmenn voru sammála um nauðsyn þess að taka ákveðin skref í átt til bætts öryggis á svæðinu til skemmri tíma og lengri. Fundarmenn voru einnig sammála um að ljúka uppsetningu viðvörunarkerfis í fjörunni.
Fundurinn ákvað að eiga formlegt samstarf um að efla öryggi ferðamanna í Reynisfjöru. Samráðshópur taki til starfa þar sem taki þátt fulltrúar landeigenda, Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar, almannavarnardeildar lögreglunnar á Suðurlandi, Landsbjargar, Mýrdalshrepps og Ferðamálastofu. Samráðshópurinn geri tímasetta aðgerðaáætlun og skili tillögum sínum til ráðherra ferðamála í síðasta lagi 30. september 2022.