Anton var í miklum ham í gær. Í undanrásunum synti hann á 2:09,69 mínútum og bætti eigið Íslandsmet. Hann var með fimmta besta tímann í undanrásunum.
Í undanúrslitunum bætti Anton um betur, synti á 2:08,74 mínútum og sló aðeins nokkurra klukkutíma gamalt Íslandsmet sitt. Anton var með næstbesta tímann í undanúrslitunum. Aðeins ástralski heimsmethafinn Zac Stubblety-Cook var með betri tíma; 2:06,72 mínútur. Yu Hanaguruma frá Japan var með þriðja besta tímann; 2:08,75 mínútur.
Sem fyrr sagði er Anton fimmti Íslendingurinn sem kemst í úrslit á HM í 50 metra laug. Hann vonast væntanlega eftir því að feta í fótspor Arnar Arnarsonar sem vann til tveggja verðlauna á HM í Fukuoka í Japan 2001. Örn vann silfur í 100 metra baksundi og brons í 200 metra baksundi.

Eðvarð Þór Eðvarðsson komst í úrslit í 200 metra baksundi á HM í Madríd 1986.
Tvær íslenskar sundkonur komust í úrslit á HM í Kazan í Rússlandi 2015. Hrafnhildur Lúthersdóttir lenti í 7. sæti í 50 metra bringusundi og 6. sæti í 100 metra bringusundi. Hrafnhildur vann svo tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á EM í 50 metra laug í London 2016.
Eygló Ósk Gústafsdóttir komst í úrslit í 200 metra baksundi á HM í Kazan 2015 og endaði í 8. sæti. Seinna sama ár vann hún tvenn bronsverðlaun á EM í 25 metra laug.
Anton syndir í úrslitum í 200 metra bringusundi klukkan 17:28 í dag.