Mótshaldarar ákváðu því í morgun að fresta yfirliti stóðhesta sem átti að hefjast á kynbótavellinum klukkan átta, þar til sljákkaði í veðurhamnum.
Í framhaldi af því fundaði stjórn Landsmóts til að ákveða með framhaldið. Þar var ákveðið að fresta sýningum og keppni til klukkan 16.
Einróma ákvörðun
„Staðan var ekki nógu góð til að hefja sýningu. Það var einróma ákvörðun framkvæmdastjórnar og mótsstjórnar,“ segir Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Landsmóts. „Mótsstjórn ákvað að fresta öllum dagskrárliðum kynbótamegin til klukkan fjögur og til klukkan fimm hringvallarmegin.“
Magnús segir að þrátt fyrir bleytuna verði vellirnir tilbúnir þegar veðrinu slotar. „Kynbótamegin eru vellirnir í lagi. Ef það væri ekki svona mikið rok værum við byrjuð. Keppnismegin er skeiðbrautin blaut en við lögum það áður en keppnin byrjar í dag.“
Hann segir þetta vissulega leiðinlega stöðu en ekki sé hægt að ráða yfir veðrinu. „Það er ekkert annað í mínum bænum en að óska eftir betra veðri.“
