Orðalag skýrslunnar gefur til kynna að mannréttindaskýrsla muni vera gefin út á hverju ári hjá fyrirtækinu en skýrslan sem kom út í gær nær yfir tímabilið 1. janúar 2020 til 31. desember 2021.
Samkvæmt umfjöllun Reuters hafi Meta ekki gefið út skýrslu yfir mannréttindamat sem framkvæmt var af óháðum lögfræðingum vegna áhrifa Facebook á Indlandi. Skýrslan sem gefin var út í gær innihaldi einungis samantekt um skýrslu lögfræðistofunnar, Foley Hoag.
Mannréttindastofnanir ósáttar
Mannréttindastofnanir eins og Amnesty International og Human Rights Watch hafi lýst yfir óánægju sinni vegna þessa en stofnanirnar sökuðu Meta um að tefja útgáfu skýrslunnar nú í janúar. Lengi hafi stofnanir sem þessar ásamt fleiri hagsmunaaðilum haft áhyggjur af dreifingu hatursorðræðu og rangra og misvísandi upplýsinga á netinu á Indlandi.
Mannréttindamatið á Indlandi var framkvæmt árið 2020 en vandræði Facebook víðsvegar um heiminn komu greinilega í ljós þegar Facebook uppljóstrarinn Frances Haugen sagði frá vanköntum fyrirtækisins í þeim efnum í október 2021. Kom í ljós að Facebook hafi ekki gert nóg til þess að koma í veg fyrir dreifingu æsandi og móðgandi efnis ásamt hatursorðræðu.
Samkvæmt Reuters segir Meta í nýju ársskýrslunni að lögfræðistofan hafi bent á áberandi mannréttindaáhættu eins og að ýta undir hatur sem geti leitt til ofbeldis. Mannréttindasérfræðingar hafi sagt samantektina sem finnst í nýju skýrslunni ekki færa fram neitt sem aðstoði við það að skilja hlutverk fyrirtækisins í dreifingu hatursorðræðu á Indlandi.