Steven Gerrard, sem tók við Villa í nóvember í fyrra, þykir harður í horn að taka en sektalistinn er allavega árs gamall.
Samkvæmt sektalistanum þurfa leikmenn Villa til að mynda að greiða hundrað pund, eða tæplega sautján þúsund krónur, fyrir að skilja hnífapör eftir í matsalnum. Þá eru leikmenn sektaðir fyrir að mæta of seint á æfingu; tvö hundruð pund (33.272) á mínútuna.
Leikmönnum er einnig skylt að koma með köku á afmælisdaginn sinn, annars bíður þeirra fimmtíu punda sekt (8.318 kr.). Eflaust er hægt að fá fínustu köku, eða kökur, fyrir þá upphæð.
Ef leikmenn mæta of seint á einhvern viðburð á leikdag fá þeir þúsund punda sekt (166.360 kr.). Þeir eru einnig sektaðir fyrir að mæta ekki í réttum klæðnaði á leikdegi.
Villa endaði í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Liðið hefur látið til sín taka á félagaskiptamarkaðnum í sumar og meðal annars keypt Brasilíumennina Diego Carlos frá Sevilla og Philippe Coutinho frá Barcelona. Sá síðarnefndi lék sem lánsmaður með Villa seinni hluta síðasta tímabils.