Óskar stýrir Breiðabliki í kvöld þegar liðið tekur á móti Istanbul Basaksehir í Sambandsdeild Evrópu.
Eftir góðan árangur Breiðabliks og Gróttu undir stjórn Óskars má ætla að erlend félög beri víurnar í þennan 48 ára gamla þjálfara. Norrköping er þar á meðal en samkvæmt staðarmiðlinum Norrköpings Tidende hefur félagið nú ákveðið að ráða Danann Glen Riddersholm sem þjálfara liðsins.
Í samtali við Stöð 2 í gær var Óskar spurður út í þann orðróm að hann kæmi til greina sem þjálfari Norrköping og svaraði hann þá:
„Þetta er bara endurvinnsla á gömlum fréttum held ég. Ég heyrði í þeim einu sinni og hef ekkert heyrt í þeim meira. Ég get svo sem ekkert verið að velta mér upp úr því eða flytja einhverjar fréttir. Ég er bara þjálfari Breiðabliks og það er bara frábært starf. Heiður að stýra þessu liði og þar er hugur minn núna.“
Riddersholm er fimmtugur og hefur verið án starfs í nokkra mánuði eftir að hafa síðast verið aðstoðarþjálfari hjá belgíska félaginu Genk. áður þjálfaði hann í dönsku úrvalsdeildinni, hjá SönderjyskE, AGF og Midtjylland.
Óhætt er að segja að Norrköping sé mikið Íslendingalið en í leikmannahópi aðalliðs félagsins eru nú fjórir Íslendingar, þeir Ari Freyr Skúlason, Arnór Sigurðsson, Andri Lucas Guðjohnsen og Jóhannes Kristinn Bjarnason.