Norðmaðurinn Erling Haaland skoraði bæði mörk Manchester City í 2-0 sigri liðsins á West Ham United á heimavelli þeirra síðarnefndu í Lundúnum. Englandsmeistararnir byrja mótið því á sigri.
Haaland var keyptur til City í sumar og miklar væntingar eru bornar til Norðmannsins. Hann virðist ætla að standa undir þeim en hann kom City í forystu af vítapunktinum á 36. mínútu.
Hann tvöfaldaði þá forystu City á 65. mínútu með snyrtilegri afgreiðslu eftir að Kevin De Bruyne sendi hann í gegn með glæsilegri sendingu.
Honum var skipt af velli skömmu síðar og fékk því ekki tækifæri til að klára þrennuna.
Manchester City hefur titilvörn sína á Englandi því með sigri og er strax komið með þrjú stig í töflunni. West Ham þarf að bíða lengur eftir sínum fyrstu stigum.