RÚV greinir frá þessu en þar kemur fram að búið sé að taka aðra skýrslu af tveimur þeirra. Blaðamennirnir fjórir eru Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og fyrrum meðlimur Kveiks, Þóra Arnórsdóttir hjá RÚV, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður Kjarnans.
Í febrúar á þessu ári var greint frá því að blaðamennirnir fjórir hefðu verið boðaðir í yfirheyrslu hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra vegna umfjöllunar sinnar. Í umfjöllun RÚV og Kjarnans um skæruliðadeild Samherja var meðal annars notast við gögn sem komu úr síma skipstjórans Páls Steingrímssonar en síma hans var stolið á meðan hann lá inni á sjúkrahúsi.
Rannsókn löreglunnar miðast af því að kynferðislegt efni af Páli hafi verið í símanum og blaðamennirnir því grunaðir um dreifingu á kynferðislegu efni og brot á friðhelgi. Blaðamennirnir komu þó ekki nálægt símaþjófnaðinum en sá sem stal honum hefur nú þegar verið yfirheyrður af lögreglu.
Nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um að blaðamennirnir hefðu stöðu sakbornings í málinu var yfirheyrslum þeirra frestað eftir að Aðalsteinn lagði fram kæru um lögmæti aðgerða lögreglustjórans. Máli Aðalsteins var vísað frá í Hæstarétti í mars.