„Mér fannst samvinnan í liðinu frábær. Við spiluðum frábærlega í fyrri hálfleik sem kláraði leikinn en það var þó hellings vinna eftir í síðari hálfleik,“ sagði Ásdís Karen ánægð með mörkin þjú í fyrri hálfleik.
Leikurinn fór rólega af stað en Ásdís var ánægð með fyrsta markið sem kom Val í gang.
„Stundum þarf maður heppnis mark til að komast í gang og það var raunin í þessum leik.“
Ásdís hefði viljað sjá Val halda betur í boltann í síðari hálfleik en var ánægð með varnarleikinn þrátt fyrir að hafa fengið á sig eitt mark.
„Mér fannst við halda skipulaginu í vörninni sem við vildum gera. Ég hefði viljað sjá okkur halda aðeins betur í boltann en síðari hálfleikur var mjög flottur.“
Það er spilað þétt þessa dagana og var seinasti leikur liðanna á þriðjudaginn. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, gaf lítið fyrir þá afsökun.
„Ég fann ekki fyrir neinni þreytu. Pétur sagði við okkur að þreyta væri bara í hausnum á okkur þannig við pældum ekkert í því.“
Ásdís var að lokum spurð hvort hún vildi frekar mæta Selfossi eða Breiðabliki í bikarúrslitum.
„Mér er alveg sama hvaða lið við fáum í úrslitum. Það er gaman að vera komin á Laugardalsvöll og við ætlum að taka bikarinn,“ sagði Ásdís að lokum.