Dalvíkingurinn Nökkvi Þeyr Þórisson hélt áfram að fara á kostum og skoraði þrennu fyrir KA í 4-2 sigrinum gegn Stjörnunni í gærkvöld. Hann er þar með langmarkahæstur í deildinni með 16 mörk nú þegar KA hefur spilað 18 leiki. Liðið er þremur stigum á eftir Blikum sem spila gegn Fram í kvöld.
Alls voru fjögur mörk skoruð úr vítaspyrnum í Garðabæ í gær. Jóhann Árni Gunnarsson nýtti báðar spyrnur Stjörnunnar og tvö af mörkum Nökkva komu af vítapunktinum. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði annað mark KA í leiknum og hefur því skorað í þremur deildarleikjum í röð.
Haukur Andri Haraldsson, sem er nýorðinn 17 ára, tryggði ÍA afar dýrmætan sigur gegn ÍBV með marki undir lok leiks.
Haukur Andri, sem er bróðir Tryggva Hrafns í Val og landsliðsmannsins Hákons Arnars, skoraði þarna sitt fyrsta mark í efstu deild og stórbætti stöðu ÍA sem komst úr botnsæti deildarinnar og upp fyrir Leikni, sem þó á tvo leiki til góða.
Kristian Lindberg hafði komið ÍA yfir í fyrri hálfleik en Andri Rúnar Bjarnason jafnað metin fyrir ÍBV nokkrum sekúndum eftir að seinni hálfleikur hófst.
Átjándu umferð Bestu deildarinnar lýkur í kvöld með fjórum leikjum og eru tveir þeirra í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en hinum tveimur streymt á Bestu deildar rásunum.
FH reynir að hefja endurreisn sína með sigri gegn Keflavík klukkan 18 og klukkan 20:15 er stórleikur á milli Víkings og Vals. Þessir leikir eru á Stöð 2 Sport en á Bestu deildar rásunum má sjá leikni Leiknis og KR, og Fram og Breiðabliks.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.