Ráðherrarnir samþykktu að slíta samkomulagi við Rússland frá 2007 sem gerði ferðalög Rússa til Evrópu auðveldari og ódýrari. Þetta er til viðbótar við þvinganir sem ESB beitti gegn rússneskum embættismönnum og auðjöfrum í maí, vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Með þessu verður Rússum einnig erfiðara að ferðast til Íslands, sem er aðili að Schengen-samstarfinu.
Segir fjölda ferðamanna ógna öryggi ríkja
Eftir fund ráðherranna í Prag í morgun sagði Josep Borrell, sem stýrir utanríkismálum ESB, að frá því innrásin í Úkraínu hófst hafi rússneskum ferðamönnum fjölgað í Evrópu. Þau séu í verslunarferðum „eins og ekkert stríð geisi í Úkraínu,“ hefur AP fréttaveitan eftir Borrell.
Borrell sagði þessa fjölgun ferðamanna frá Rússlandi ógna öryggi ríkja sambandsins sem deildu landamærum með ríkinu. Hann sagðist telja að þessi breyting muni leiða til færri vegabréfsáritana fyrir ferðamenn frá Rússlandi.
Rúmlega milljón rússneskir ríkisborgarar hafa komið inn á Schengen-svæðið frá því innrásin í Úkraínu hófst. Þar af lang flestir í gegnum Finnland og Eistland. Erfitt er fyrir Rússa að ferðast til Evrópu í lofti, þar sem rússneskum flugvélum hefur verið meinaður aðgangur að lofthelgi flestra Evrópuríkja.
Evrópusambandið hefur að mestu staðið þétt við bakið á Úkraínu vegna stríðsins þar og beitt Rússland umfangsmiklum refsiaðgerðum.

Ráðamenn í Úkraínu hafa kallað eftir því að almenningi í Rússlandi verði meinaður aðgangur að ferðamannastöðum í Evrópu vegna innrásarinnar í Úkraínu, sem hefur kostað þúsundir almennra borgara í Úkraínu lífið. Það hafa ráðamenn í Eystrasaltsríkjunum tekið undir, auk Pólverja, Dana og annarra.
Ætla að grípa til eigin aðgerða
Utanríkisráðherrar Eistlands og Lettlands sögðu í morgun að þar á bæ yrði mögulega gripið til einhliða aðgerða gegn rússneskum ferðamönnum og þá á grundvelli þjóðaröryggis.
Þá munu Finnar draga verulega úr útgáfu vegabréfsáritanna til Rússa í vikunni. Þeir ætla að gefa út níutíu prósentum færri vegabréfsáritanir til Rússa og verður Rússum eingöngu heimilt að sækja fjórar borgir við landamæri ríkjanna.
„Það er mikilvægt að á sama tíma og Úkraínumenn þjást, muni venjulegur ferðamannaiðnaður ekki halda áfram,“ sagði Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands. Hann sagðist vonast til þess að önnur ríki Evrópu gripu til svipaðra aðgerða.
Reuters hefur eftir Jan Lipavsky, utanríkisráðherra Tékklands, að ákvörðun ESB sé einungis fyrsta skrefið og það sé mikilvægt. Tékkar eru meðal þeirra sem hafa kallað eftir því að banna rússneskum ferðamönnum að ferðast til Schengen-ríkja.
Þá segir fréttaveitan að framkvæmdastjórn ESB muni skoða hvort eitthvað og þá hvað sé hægt að gera varðandi þær tólf milljónir vegabréfsáritana sem þegar er búið að gefa út til rússneskra ferðamanna.