„Þetta verða alveg svakalega spennandi úrslit og það er svakalega mjótt á mununum. Þannig það er allt of snemmt að segja til hvernig þetta fer,“ sagði Gunnhildur Lillý Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Þegar rætt var við Gunnhildi Lillý gaf útgönguspá það til kynna að vinstriblokkin sem Magdalena Andersson, formaður Jafnaðarmannaflokksins og forsætisráðherra Svíþjóðar leiðir, fengi 176 þingsæti á móti 175 þingsætum vinstriblokkarinnar.
Nú þegar áttatíu prósent atkvæða hafa verið talin hefur staðan snúist við. Miðað við bráðabirgðatölur fær hægriblokkin 176 sæti en sú til vinstri 175.
Jafnaðarmenn stærstir en Svíþjóðardemókratar bæta mest við sig
Flokkur forsætisráðherrans er eins og stendur með 30,5 prósent talinna atkvæða og því stærsti flokkurinn á sænska þinginu. Svíþjóðardemókratar koma næstir á eftir með 20,7 prósent atkvæða.
Gunnhildur Lillý segir að fyrstu tölur og útgönguspá bendi til þess að kjósendur séu að velja á milli nýrra blokka og að þeir séu að velja út frá hugmyndafræði, að einhverju leiti, hvort þeir vilji stjórn sem er studd af Svíþjóðardemókrötum eða núverandi ríkisstjórn sem ekki getur hugsað sér að starfa með þeim.
Hún segir ekki óvænt að Svíþjóðardemókratar séu orðnir stærsti hægriflokkurinn á sænska þinginu. Þeir græði á því að hafa aldrei setið í ríkisstjórn og að hafa lagt áherslu á gengjatengd glæpamál og lög og reglu, sem hafa verið ofarlega í huga kjósenda.
Hún hefur þó ekki trú á því að Svíþjóðardemókratar setjist í ríkisstjórn en svo geti farið að þeir styðji borgaralega ríkisstjórn undir stjórn Ulf Kristersson, formanns hægriflokksins Moderaterna.
Að lokum segir Gunnhildur Lillý að lokaúrslita sé ekki að vænta fyrr en á miðvikudag í fyrsta lagi. Því er ljóst að spennan verður áfram mikil í þingkosningunum í Svíþjóð.
Hér að neðan má sjá kvöldfrétt Stöðvar 2 um kosningarnar og viðtal við Gunnhildi Lillý.