Leikurinn var gríðarlega spennandi frá upphafi til enda en heimaliðið var alltaf skrefi á undan. Liðið leiddi 14-13 í hálfleik og virtist vera með öll tök á leiknum í þeim síðari. Munurinn var kominn upp í fimm mörk þegar tíu mínútur lifðu leiks en og sex þegar aðeins fimm mínútur voru eftir.
ÍBV skoraði hins vegar aðeins eitt mark síðustu fimm mínútur leiksins á meðan gestirnir minnkuðu muninn niður í eitt mark áður en flautað var til leiksloka. Lokatölur 28-27 og ÍBV byrjar tímabilið á góðum en naumum sigri.
Harpa Valey Gylfadóttir var markahæst í liði ÍBV með sex mörk en þar á eftir komu Sunna Jónsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Ásta Björt Júlíusdóttir með fimm mörk hver. Í liði KA/Þórs var Unnur Ómarsdóttir markahæst með sex mörk.