Tvær vindmyllur hafa staðið við Þykkvabæ í tæpan áratug en þær eyðilögðust báðar í bruna, önnur árið 2017 og hin um síðustu áramót. Önnur þeirra var sprengd niður af sprengjusveit Landhelgisgæslunnar 4. janúar síðastliðinn eftir sex tilraunir. Aðgerðin tók átta klukkustundir.
Aðgerðin í dag tók mun skemmri tíma, eða um tvo tíma. Vindmyllan virtist reyndar ætla að láta bíða eftir sér því ekki fór hún niður eftir fyrsta skurðinn í gegnum hana. Starfsmenn Hringrásar skáru þá meira í vindmylluna og beittu einnig tjakki, sem virðist hafa gert gæfumuninn, eins og sjá má á upptökunni hér að ofan.

Hlupu burt þegar hún féll
„Þetta gekk bara ágætlega. Við hefjum viljað vera búnir aðeins fyrr,“ sagði Sigmar Eðvardsson, einn eigenda Hringrásar, í viðtali við Hallgerði Kolbrúnu E. Jónsdóttur, fréttamann okkar sem fylgdist með á vettvangi ásamt Agli Aðalsteinssyni, tökumanni.
Sjá mátti starfsmenn Hringrásar hlaupa í burtu frá vindmyllunni þegar hún byrjaði að falla. Sigmar telur líklegt að rokið á vettvangi hafi mögulega tafið eitthvað fyrir.

„Það er mjög líklegt að það hafi gert það að verkum að hún féll ekki strax í byrjun, vindurinn. Við það að fá tjakkinn undir þá skipti það máli.“
Um 60 tonn af stáli liggja nú á jörðinni við Þykkvabæ. Starfsmenn Hringrásar munu hefjast handa á eftir við að brytja hana niður. Stálið verður flutt til Reykjavíkur og þaðan erlendis til endurvinnslu.
Hér að neðan má sjá þegar fyrri vindmyllan féll loks í sjöttu tilraun í janúar.
Fréttin hefur verið uppfærð.