Í fréttum Stöðvar 2 voru Hólar í Hjaltadal heimsóttir. Hann hét Bændaskólinn á Hólum þegar fiskeldisnámið hófst fyrir hartnær fjörutíu árum en það var upphaflega hugsað fyrir bændur sem vildu ala bleikju sem aukabúgrein.
„Síðan á síðustu tuttugu árum þá hefur fiskeldið sprungið út og orðið að stóriðnaði. Þetta eru stórfyrirtæki með mikið af starfsfólki sem þurfa menntun,“ segir Bjarni Kristófer Kristjánsson, prófessor við fiskeldis- og fiskalíffræðideildina.
Hann segir að áður hafi nemendur í fiskeldi kannski verið að jafnaði á bilinu sex til tíu talsins.
„En á síðustu svona þremur til fjórum árum þá hefur orðið alger sprenging. Og núna eru í náminu hjá okkur um fjörutíu nemendur og þar af eru um þrjátíu nemendur nýir. Þetta er sem sagt eins árs nám,“ segir Bjarni. Hluti af því er tólf vikna verknám í fiskeldisstöð.
Skólinn býður einnig upp á meistaranám.
„Við erum með tvær línur í meistaranámi, annarsvegar rannsóknartengt meistaranám í sjávar- og vatnalíffræði, og hins vegar nám sem heitir Mar-Bio, sem er samskandinavískt nám - við erum með Norðmönnum og Svíum – og er mjög praktískt. Síðan höfum við verið að leiðbeina doktorsnemum,“ segir Bjarni.
Rannsóknar- og þróunarstarf er hluti starfseminnar og háskólinn rekur kynbótastöð fyrir bleikju.
„Við erum sem sagt að þróa stofn, bleikjustofn, sem er hagkvæmur í eldi og gefur sem mest gæði í fiski fyrir neytendur,“ segir Einar Svavarsson, stöðvarstjóri bleikjukynbótastöðvarinnar.
Nýr rektor, Hólmfríður Sveinsdóttir, segir skólann vilja styðja við atvinnulífið.
„Háskólinn hérna er mjög tengdur atvinnulífinu. Við höfum byggt upp þessi fræðasvið í kringum atvinnugreinarnar; hestamennsku, ferðamennsku og fiskeldi, með það bara að markmiði að efla þessar greinar,“ segir Hólmfríður.
Fiskeldisdeildin tekur einnig á móti fjölda erlendra nema í verknám.
„Síðustu tvö árin hafa það verið yfir þrjátíu manns. Þannig að allt í allt þá eru í deildinni hjá okkur um áttatíu nemendur,“ segir Bjarni Kristófer.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: