Ríkisstjórar úr röðum Repúblikanaflokknum í landamæraríkjunum Texas og Arizona hafa upp á síðkastið stundað það að senda hælisleitendur með rútum og flugvélum til borga eins og New York, Washington og Chigaco sem demókratar stýra og yfirlýst stefna yfirvalda er að taka ekki þátt í að vísa innflytjendum úr landi. Með því þykjast þeir mótmæla innflytjendastefnu demókrata og að ríki þeirra sitji ein eftir með að taka við straumi hælisleitenda á landamærunum.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, tók slíka flutninga skrefinu lengra í síðustu viku þegar hann lét smala saman hópi venesúelskra hælisleitenda í Texas og flytja þá með flugvél til Vínekru Mörtu, lítillar og velmegandi sumardvalareyju í Massachusetts. Fólkinu hafði verið lofað aðstoð og störfum á áfangastað.
Yfirvöld á eyjunni fengu engan fyrirvara um komu hælisleitendanna og voru alls óundirbúin. Samfélagið á eyjunni tók aftur á móti höndum saman um að skjóta yfir fólkið skjólshúsi, fæða það og klæða á meðan yfirvöld leystu úr málum þeirra. Svo virðist sem að hælisleitendurnir hafi ekki vitað hvar þeir voru staddir enda hafði þeim verið sagt að þeir færu til Boston.
Flórída á ekki landamæri að Mexíkó, þaðan sem langflestir þeirra sem sækjast eftir hæli eða dvöl í Bandaríkjunum koma. DeSantis notaði peninga úr sjóð sem er ætlað að koma hælisleitendum fyrir til að greiða fyrir flutning á hópnum frá Texas til Massachusetts með millilendingu á Flórída.
Segir fólkið hafa verið tælt á fölskum forsendum
Nú hefur hluti hælisleitendanna stefnt DeSantis og samgönguráðherra hans fyrir alríkisdómstól í Boston og saka þá um sviksamlega og óréttláta áætlun um að koma þeim fyrir annars staðar, að sögn AP-fréttastofunnar. Í stefnunni er því haldið fram að hælisleitendurnir hafi verið tældir til ferðarinnar á fölskum forsendum.

„Engin manneskja ætti að vera notuð sem pólitískt peð,“ sagði Iván Espinoza-Madrigal, forstöðumaður samtaka sem vilja höfða hópmálsókn fyrir hönd hælisleitendanna.
DeSantis og talsmenn hans hafa enga iðrun sýnt og ekki viljað staðfesta eða hafna fréttum um að ríkisstjórinn ætli að senda fleiri hælisleitendur um landið.
„Það er tækifærismennska að aðgerðasinnar noti ólöglega innflytjendur í pólitískt leikhús,“ segir Taryn Fenske, samskiptastjóri DeSantis, um málsóknina. DeSantis hefur sjálfur verið sakaður um pólitísk bellibrögð með uppátækinu en hann er talinn líklegt forsetaefni Repúblikanaflokksins ef Donald Trump býður sig ekki fram aftur.
Lögreglustjóri í San Antonio, þaðan sem hælisleitendunum var flogið, hefur sagt ætla að kanna hvort lögbrot hafi verið framið. Sumir demókratar hafa kallað eftir því að dómsmálaráðuneytið rannsaki flutningana þar sem fólkið var flutt yfir ríkjamörk.