Í hlaðvarpsþættinum Handkastið greindi þáttastjórnandinn Arnar Daði Arnarsson frá því að Ísfirðingar hafi leitað á ansi ólíkleg mið eftir liðsstyrk á dögunum.
Samkvæmt heimildum Handkastsins spurðust Ísfirðingar fyrir um hinn bráðefnilega Hauk Þrastarson sem er á mála hjá pólska stórliðinu Kielce.
„Mér bárust fregnir af því og ég ætla bara að opinbera það að þeir reyndu að fá Hauk Þrastarson. Þeir höfðu samband við Talant og Kielce. Þeir höfðu líka samband við Ribe Esbjerg vegna Arnars Birkis Hálfdánssonar og Danirnir voru tilbúnir að losa hann en hann hafnaði því,“ segir Arnar Daði.
Eftir að Arnar Birkir hafi hafnað Ísafjarðarliðinu hafi þeir leitað á náðir Þórs sem leikur í Grill 66 deildinni.
„Harðverjar reyndu líka að fá Josip Vekic að láni frá Þór í sex vikur og voru tilbúnir að borga ríkulega fyrir það. Þórsararnir sögðu nei takk,“ segir Arnar Daði.
Þáttinn í heild sinni má nálgast hér fyrir neðan.