„Frábær leikur. Þeir voru rosalega „agressívir“ og við vissum svo sem að þeir yrðu það en vorum klárlega ekki tilbúnir í það til að byrja með. Svo fórum við bara aðeins „control-a“ okkur sjálfa og þá fór þetta að falla okkur megin.“
Tindastólsmenn misstu Adomas Drungilas útaf í upphafi seinni hálfleiks en hann var rekinn útúr húsi fyrir olnbogaskot í höfuð Dominykas Milka. Gestirnir voru þá orðnir ansi fáliðaðir í miðherjastöðunni en Sigurður Gunnar Þorsteinsson er meiddur. Keflvíkingum tókst þó ekki að nýta sér þessa stöðu að neinu marki.
„Við fórum bara alveg í baklás við að reyna að nýta okkur þetta. Þeir fóru að tvídekka og við fórum alltof mikið að hugsa bara um það að henda boltanum inn í. Í staðinn fyrir að fá boltann í betra flæði erum við að henda honum inn í teig og þeir tvídekka og við vorum bara í veseni með það. Við þurfum aðeins að skoða það og fá boltann aðeins nær fyrir stóru strákana ef þetta gerist aftur.“
Það var eins og áður sagði frábær stemming í Keflavík í kvöld, og Hjalti var að vonum sáttur og kallar eftir því að það verði jafnvel mætt á alla leiki í vetur.
„Þetta er geggjað, algjörlega geggjað og ég vona að þetta verði bara svona í allan vetur. Þetta er bara gleði og stemming, bara geggjað.“
Keflvíkingar eru með ansi breiðan hóp í vetur, en Hjalti sagði að hópurinn væri í raun dýpri en leikurinn í kvöld gaf til kynna, og sendi hrós á þá leikmenn sem fengu ekki að koma við sögu í kvöld.
„Við erum með mjög góða breidd já. Við erum í raun með dýpri bekk en þetta í rauninni. Við erum alveg með jafnvel 12 leikmenn sem geta spilað í þessari deild. Það er bara hrós á þá sem komu ekki inn á að halda haus, halda áfram og njóta þess að spila með okkur.“