Ör var skotið í læri hests frá Tjarnabyggð skammt frá Selfossi í nótt. Lögreglunni á Suðurlandi var gert viðvart um málið og framkvæmdi hún húsleit í kjölfarið í samstarfi við sérsveit ríkislögreglustjóra. Lögregla greinir frá málavöxtunum á Facebook þar sem fram kemur að rannsókn miði vel.
Fréttastofa ræddi við eiganda hestsins Ýmis fyrr í dag og sagðist hann vera í áfalli. Arnar Kjærnested, eigandi hins 24 vetra Ýmis frá Bakka, segir mildi að ekki hafi farið verr. Hann segir ljóst að örinni hafi verið skotið af miklu afli og af skömmu færi.
„Það er skrýtið að gera dýri svona, þetta hefur verið einhver hálfviti. Maður skilur bara ekkert hvað vakir fyrir fólki sem gerir svona lagað. Það er heppni að þetta fari í lærið á honum en ekki magann eða önnur líffæri. Þannig við erum þakklát því en auðvitað bara í miklu sjokki að þetta skuli gerast hér, “ sagði Arnar í samtali við fréttastofu.