Íslenska landsliðið spilar hreinan úrslitaleik við Portúgal í bænum Pacos de Ferreira í dag um sæti á HM. Ef staðan verður jöfn eftir 90 mínútur verður gripið til framlengingar og svo mögulega vítaspyrnukeppni. Þorsteinn segist þó hafa forðast að innprenta þann möguleika inn í leikmenn og vítin hafa ekki verið sérstaklega æfð í Portúgal síðustu daga:
„Við erum ekki búin að æfa neitt svoleiðis,“ sagði Þorsteinn við Vísi á hóteli landsliðsins í gær.
„Við höfum ekki æft nein víti en það hafa stöku leikmenn kannski verið að leika sér. Við höfum ekkert rætt þetta en gerum það kannski [í dag eða í gær]. Við erum bara fókuseruð á að spila þennan fótboltaleik og svo tekur maður þeim hlutum sem að koma.
Við þurfum að undirbúa einhverja hluti en við erum ekki að fara að innprenta í leikmenn að þessi eða hinn eigi að taka víti. Ef að leikmanni líður vel og vill taka víti þá tekur hann víti, vegna þess að þá eru meiri líkur á að þú skorir frekar en að maður sé búinn að ákveða að einhver leikmaður taki víti sem líður svo ekkert vel inni á vellinum. Þá er betra að hlusta á leikmenn sem segja: „Ég er klár“,“ segir Þorsteinn.

„Auðvitað hefur maður það á bakvið eyrað“
Ein af þeim sem eru klárar í að taka víti er Dagný Brynjarsdóttir, langmarkahæsta landsliðskonan í íslenska hópnum.
„Já, já. Auðvitað hefur maður það á bakvið eyrað. Ég er vítaskytta hjá West Ham svo ég æfi mig reglulega í London. Auðvitað vill maður klára þetta í venjulegum leiktíma en maður er með það bakvið eyrað að þetta gæti farið í vítaspyrnukeppni og ef sú verður niðurstaðan þá förum við annað hvort á HM eða enn lengri leið [í gegnum aukaumspil]. Það er mikið undir og sama hvernig við vinnum þá þurfum við bara að vinna,“ segir Dagný.
Ísland og Portúgal mætast klukkan 17, að íslenskum tíma, í úrslitaleik um sæti á HM. Fjallað verður ítarlega um leikinn á Vísi í allan dag.