Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá Hákon, krónprins Noregs, mæta til þingsins. Við aðalinngang Hörpu tók stofnandi Hringborðsins á móti krónprinsinum.

„Þetta þing hefur meiri pólitíska þungavigt heldur en hin fyrri og er líka með öflugri þátttöku frá fjölmörgum ríkjum,“ segir Ólafur Ragnar, formaður Hringborðs norðurslóða.
Þannig hafi Noregur sent í fyrsta sinn einn sinn æðsta fulltrúa, krónprinsinn. Einnig Kanada, með sinn þjóðhöfðingja, Mary Simon. Bandaríkin og Indland sendi bæði öflugar sendinefndir. Sömuleiðis séu Kína, Japan og Kórea mætt til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
„Þannig að þetta þing, umfram önnur, staðfestir með mjög augljósum hætti að norðurslóðir eru orðinn svona meginvettvangur á valdaskákborði heimsins, hvað snertir samskipti ríkja, loftlagsbreytingar, nýtingu auðlinda, vísindarannsóknir,“ segir Ólafur Ragnar.

Þótt enska sé tungumál þingsins prófaði krónprins Noregs okkar ylhýra.
„Góðan daginn, kæru vinir,“ sagði Hákon á íslensku.
Og hrósaði svo Ólafi Ragnari:
„Þér og samtökum þínum hefur tekist að skapa öflugan vettvang til að ræða málefni norðurslóða á breiðum grundvelli.
Þetta verður æ mikilvægara, ekki aðeins fyrir þá sem búa á norðurslóðum heldur fyrir allan heiminn,“ sagði krónprinsinn.

Um tvö þúsund manns frá yfir sextíu löndum taka þátt í þinginu, sem stendur fram á laugardag. Það vantar hins vegar algerlega fulltrúa frá einu landi, því stærsta á norðurslóðum, Rússlandi.
Ólafur Ragnar bendir á að mörgum mánuðum fyrir Úkraínustríðið hafi Rússar verið búnir að draga sig út úr umræðum sem þessum.
„Þannig að óháð þessum erfiðleikum í Evrópu og þessu hræðilega stríði, og hvað Rússar kjósa að gera og hvernig þeir vilja einangra sig, eða aðrir einangra þá, þá höldum við okkar strik,“ segir Ólafur Ragnar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Viðtal Stöðvar 2 við Ólaf Ragnar í fullri lengd má sjá hér: