Með breytingunni verður hámarkshraði í götunum ýmist þrjátíu eða fjörutíu kílómetrar á klukkustund í stað fimmtíu km/klst áður. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að ákveðið hafi verið að flýta því að ráðast í þennan hluta hámarkshraðaáætlunarinnar vegna skólastarfsemi í Ármúla þar sem grunnskólanemendur séu mikið á ferðinni á svæðinu.
Hámarkshraði verður lækkaður í Ármúla, Selmúla, Síðumúla, Vegmúla, Fellsmúla, Hallarmúla og Háaleitisbraut. Breytingin verður auglýst í Stjórnartíðindum og tekur gildi þegar umferðarmerkjum hefur verið breytt. Samkvæmt upplýsingum frá borginni verður það á næstu vikum.
Yfirlýst markmið borgaryfirvalda er að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar.
„Það er því ekki réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir aðra hagsmuni samfélagsins, eins og til dæmis minni tafir. Sé ætlunin að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni þar sem ólíkir ferðamátar mætast verður blöndun ólíkra ferðamáta að vera á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda. Eitt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða við þær aðstæður,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Breytingarnar á hámarkshraða eru eftirfarandi:
- Háaleitisbraut, frá Kringlumýrarbraut að Ármúla, hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Háaleitisbraut, frá Miklubraut norður fyrir Safamýri að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Háaleitisbraut, frá Ármúla að núverandi 30 km/klst svæði,hámarkshraði verði 40 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Lágmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Hallarmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Ármúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Selmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Síðumúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Vegmúli, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.
- Fellsmúli, frá Grensásvegi að núverandi 30 km/klst svæði, hámarkshraði verði 30 km/klst, í stað 50 km/klst.