Trump hefur áður ýjað að þessu, en í gær kvað hann fastar að orði en áður og sagði það „mjög, mjög, mjög líklegt“ að hann muni bjóða sig fram aftur árið 2024.
Trump var að tala á fyrstu fjöldasamkomunni af fjórum sem hann stendur fyrir næstu daga til að hjálpa Repúblikönum sem eru hliðhollir honum í þingkosningunum sem fram fara vestra um næstu helgi.
Joe Biden núverandi forseti er einnig á þönum um landið til að reyna að tryggja Demókrötum viðundandi árangur en úrslit kosninganna geta haft mikil áhrif á getu hans í embætti til að koma málum í gegn.
Í ræðu sinni í gær hélt Trump áfram fram þeirri firru að hann hafi í raun farið með sigur af hólmi gegn Joe Biden en að kosningunum hafi verið stolið á einhvern hátt. Hann sagði að sér hafi meira að segja gengið enn betur í annað skiptið heldur en þegar hann náði kjöri. Þessvegna væri mjög líklegt að hann muni bjóða sig fram aftur.