Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Heimamenn hafa átt erfitt uppdráttar í upphafi tímabils og eru eins og áður segir án stiga. Það voru þó Harðverjar sem reyndust sterkari á lokamínútum fyrri hálfleiks og liðið fór með tveggja marka forskot inn í hálfleikshléið, staðan 18-16.
Gestirnir í Fram voru þó fljótir að snúa taflinu sér í hag í síðari hálfleik og liðið skoraði fyrstu þrjú mörkin eftir hlé og náði forystunni af heimamönnum. Framarar náðu mest þriggja marka forskoti í síðari hálfleik og unnu að lokum nauman eins marks sigur, 31-32.
Fram er nú með 13 stig í öðru sæti Olís-deildarinnar þegar liðið hefur leikið níu leiki. Framarar eru því einu stigi á eftir toppliði Vals sem hefur leikið einum leik minna. Harverjar sitja hins vegar sem fastast á botninum án stiga.