„Fyrst og fremst var þessi leikur svekkelsi. Fyrir leik höfðum við allir trú á að við myndum vinna en við vissum að það þyrfti margt að ganga upp en því miður datt þetta ekki með okkur í kvöld.“
„Við höfum verið að spila mikið upp á síðkastið og það eru bara 4-5 dagar síðan við fórum að hugsa um þennan leik sem var fínt. Við lögðum línurnar í fyrra dag og við ætluðum bara að mæta og berja á þeim.“
Aron Dagur Pálsson minnkaði forskot Flensburg niður í eitt mark þegar fyrri hálfleikur var við það að klárast en gestunum tókst að skora rétt áður en fyrri hálfleikur kláraðist. Flensburg komst síðan þremur mörkum yfir í fyrstu sókn í síðari hálfleik.
„Það eru þessi litlu atriði sem þurfa að vera í lagi til að vinna lið eins og Flensburg. Það voru of mikið af litlum atriðum sem við gerðum ekki nógu vel í kvöld og við munum laga það fyrir næsta leik á móti þeim og þá vinnum við.“
Flensburg leysti varnarleik Vals betur í seinni hálfleik og Aron viðurkenndi að svona heimsklassa lið refsa fyrir mistök.
„Við ætluðum að vera grimmir og reyna að koma á blindu hliðina á þeim en þetta eru heimsklassa leikmenn sem finna leikmenn sem eru lausir og þeir fundu línuna vel.“
Næsti leikur Vals er gegn Herði í Olís deildinni á föstudaginn og Aron sagði að það yrði ekkert vanmat heldur mun Valur bera fulla virðingu fyrir því verkefni.