Laufey er nú komin í jólaskap en fyrr í mánuðinum sendi hún frá sér EP plötuna A Very Laufey Holiday. Á henni er að finna tvö lög, The Christmas Waltz og Love to Keep Me Warm. Blaðamaður náði tali af henni og fékk að heyra nánar frá verkefninu.
Barnakór í anda Charlie Brown
Laufey er þekkt fyrir einstakan djass hljóm sinn og með tónlist sinni færir hún gamla tónlistarstíla yfir í nútímann.
„Ég sótti helst innblástur frá gömlum djass jólalögum eftir Bing Crosby, Ella Fitzgerald og Hauk Morthens fyrir þetta lag,“ segir Laufey og bætir við: „Ég tók upp barnakór fyrir lagið og dró ég mikinn innblástur frá Charlie Brown Christmas fyrir það sound.“
Tími til að njóta samverunnar
Aðspurð hver sé hennar uppáhalds jólahefð segir Laufey það einfaldlega vera samveru með ástvinum. Eftir viðburðaríkt ár hlakkar hún til að njóta hátíðarinnar með þeim.
„Ég veit ekki hvort að það sé einhver ein ákveðin jólahefð hjá mér heldur bara að vera með fjölskyldunni.
Ég bý í LA og tvíburasystir mín býr í London á meðan foreldrarnir mínir eru heima á Íslandi þannig að jólin eru tíminn fyrir okkur að vera á einum stað og njóta.“
Í spilaranum hér að neðan má hlusta á A Very Laufey Holiday: