Mikill hamagangur hefur verið í Karphúsinu í dag þar sem reynt er til þrautar að landa kjarasamningum. Sunna Sæmundsdóttir hefur fylgst með stöðunni í allan dag og verður í beinni úr Karphúsinu til að fara yfir stöðuna.
Uppgangur líftæknifyrirtækisins Kerecis á Ísafirði hefur verið ævintýralegur. Fyrirtækið framleiðir einstaklega græðandi umbúðir úr þorskroði sem oft á tíðum kemur í veg fyrir að aflima þurfi fólk. Verðmæti afurðanna er meira en alls sjávarfangs á Vestfjörðum að frátöldu fiskeldi. Heimir Már kíkir í heimsókn til fyrirtækisins í kvöld.
Hún ruddi brautina fyrir íslenskar konur í flugmannastétt sem sú fyrsta sem var ráðin sem atvinnuflugmaður. Í dag var komið að síðustu lendingu Sigríðar Einarsdóttur í flugstjórasætinu hjá Icelandair og hlaut hún heiðursmóttöku á Keflavíkurflugvelli.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum okkar í kvöld: