Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin yfirgefur Kiel eftir þetta tímabil og gengur í raðir Álaborgar í heimalandinu.
Samkvæmt staðarblaðinu í Kiel, Kieler Nachrichten, rennir félagið hýru auga til Viktors og íhugar að fá hann til að fylla skarð Landins. Benjamin Buric, markvörður Flensburg, er einnig undir smásjá Kiel.
Viktor átti stórleik þegar Nantes vann Álaborg í Meistaradeild Evrópu í gær, 35-28. Á meðan leik stóð sögðust nokkrir stuðningsmenn Kiel vera spenntir fyrir Viktori og spurðu hversu lengi hann væri samningsbundinn Nantes. Svarið við því er til 2025 en einum stuðningsmanni fannst full langt að bíða þangað til.
Viktor Gísli með stórleik gegn Aroni Pálmarssyni, Mikkel Hansen og félögum í Álaborg í kvöld. Stuðningsmenn Kiel spyrja einfaldlega: "Hversu lengi er hann samningsbundinn Nantes????" "Þurfum við að bíða til 2025??" #handbolti @handboltiis @handkastid @Seinnibylgjan pic.twitter.com/qpua2oHZZr
— Höllin er úrelt (@Nyjahollstrax) December 1, 2022
Viktor kom til Nantes frá Danmerkurmeisturum GOG fyrir tímabilið. Hann hefur leikið sem atvinnumaður erlendis síðan 2019.
Viktor hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár og var valinn í úrvalslið Evrópumótsins í byrjun þessa árs.