Aldís Kara hefur undanfarin þrjú ár hlotið nafnbótina „íþróttakona Akureyrar“ og þá var hún kjörin „skautakona ársins“ á síðasta ári eftir sögulegt ár.
Hún greindi frá ákvörðun sinni á Instagram-síðu sinni í dag. Þar segir hún meðal annars:
„Listskautar hafa verið allt mitt líf síðan ég steig á ísinn í fyrsta skiptið og nú eftir 15 ára feril hef ég tekið þá ákvörðun að leggja skautana á hilluna.“
„Ég er svo ótrúlega stolt af öllu sem ég hef áorkað, að ná þeim markmiðum að vera fyrsti íslenski skautarinn til að ná lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga, Evrópumeistaramót fullorðna og að vera valin íþróttakona Akureyrar síðastliðin 3 ár. Þetta eru draumar sem litlu Aldísi hefði aldrei dottið í hug að hún myndi ná.“
Þá þakkar hún stuðningsneti sínu ásamt Skautasambandi Íslands og Skautafélagi Akureyrar fyrir allan stuðninginn. Færslu Aldísar Köru má sjá hér að neðan.