„Það var mikil þreyta í mönnum í þessum leik. Við erum að spila á háu tempói mjög lengi og við spilum frábærlega í þessum leik í rauninni allan leikinn. Þeir ná að saxa á okkur undir restina, en við erum spila frábæran leik frá fyrstu mínútu og nánast að þeirri síðustu,“ sagði Björgvin Páll eftir leikinn.
„Síðan missum við aðeins dampinn og missum menn í meiðsli. Benni [Benedikt Gunnar Óskarsson] dettur aðeins út og það er mikil þreyta í okkur öllum. Orkustigið er hátt og auðvitað kemur höllin með þeim. Ungverjarnir lenda upp við vegg og koma svo til baka og þá var aðeins erfitt að stíga aftur á bensíngjöfina.“
„Ég held að við hefðum tekið stigið fyrirfram en ógeðslega pirraðir að hafa ekki unnið leikinn.“
Björgvin átti flottan leik framan af í liði Vals, en gekk illa að klukka bolta seinni hluta síðari hálfleiks. Hann segir að sér og öðrum leimönnum liðsins líði illa eftir tapað stig.
„Illa. Þetta er mjög svekkjandi. Við ætlum auðvitað að koma hingað til að vinna, en við verðum samt að virða stigið líka. Við erum með innbyrðis viðureignina á þá og þetta er punktur í erfiðrir keppni á erfiðum útivelli. En úr því sem komið var áttum við bara að klára þetta miklu fyrr. Það var kannski smá aulaskapur í okkur að gera það ekki,“ sagði Björgvin að lokum.