Skoðun

Mannslíf í húfi

Ingvi K. Skjaldarson og Áslaug Inga Kristinsdóttir skrifa

Fram hefur sprottið mikil umræða að undanförnu um stöðu heimilislausra í borginni.

Nú hafa nokkrir hugrakkir einstaklingar í þessari viðkvæmu stöðu gripið til þess ráðs að koma fram í fjölmiðlum og segja frá ástandinu eins og það blasir við þeim.

Á Hjálpræðishernum á Suðurlandsbraut 72, er boðið upp á heita máltíð alla virka daga í hádeginu til þeirra sem eru jaðarsettir á einhvern hátt. Þau sem hafa tök á geta verslað máltíð eða annað meðlæti á kaffihúsinu, Kastalakaffi og stutt þannig við velferðarstarfið í leiðinni.

Ásamt heitri máltíð hefur Hjálpræðisherinn í Reykjavík upp á að bjóða sturtuaðstöðu fyrir þau sem þess þurfa, sem aðgengileg er hreyfihömluðum. Í húsnæðinu er einnig að finna hvíldarherbergi fyrir þau sem vantar athvarf, sem opið er alla virka daga frá 10 til 17.

Það hefur verið vilji Hjálpræðishersins að styðja enn betur við jaðarsetta hópa í samfélaginu og þá sérstaklega þau sem eru heimilislaus, eða allt frá því Herinn starfrækti dagsetur frá 2007-2015. Samtal hefur átt sér stað við starfsmenn velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar ásamt því að sendir hafa verið póstar á pólitískt kjörna fulltrúa í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem óskað hefur verið eftir samtali til að mæta þeirri brýnu þörf sem nú er uppi. Hjálpræðisherinn telur mjög mikilvægt að brugðist sé við, ekki einungis í borginni, heldur sé þetta sameiginlegt verkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (og jafnvel víðar) ásamt því að ríkið þyrfti að koma að því að úrræði sem opið er á dagtíma sé í boði fyrir þennan hóp.

Um afar viðkvæman hóp er að ræða sem upplifir því miður fordóma víða og hefur oft á tíðum flóknar þjónustuþarfir. Mikilvægt er að komið sé fram af kærleika og virðingu við þá sem þurfa að nýta þjónustu sem þessa og notendasamráð sé haft. Margir af þessum einstaklingum búa við fötlun vegna langvarandi veikinda. Við teljum mikilvægt að farsæl lausn verði fundin hið fyrsta fyrir þennan hóp því hér er um mannslíf að ræða.

Hjálpræðisherinn vill að þau sveitarfélög sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu og þau ráðuneyti sem að þessu máli koma, taki höndum saman, því saman getum við gert þetta vel og af virðingu fyrir þau sem höllum fæti standa í samfélaginu.

Hafa ekki öll líf sama vægi?

Höfundar eru foringi Hjálpræðishersins í Reykjavík og fulltrúi ÖBÍ í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×