Skoðun

Tungutak

Baldur Hafstað skrifar

Málfræðingar trana sér yfirleitt ekki fram, og reyndar finnst mér að okkar virtustu málvísindamenn mættu láta meira í sér heyra á opinberum vettvangi. En nú verð ég að hrósa Ríkisútvarpinu og Guðrúnu Línberg Guðjónsdóttur fyrir að hafa í þáttunum Orð af orði rætt við þrjá sérfræðinga sem nýlega fluttu fyrirlestra á málþingi undir yfirskriftinni „Kynhlutlaust mál“.

Á þinginu töluðu fulltrúar þriggja kynslóða: Finnur Ágúst Ingimundarson MA; dr. Guðrún Þórhallsdóttir dósent; og dr. Höskuldur Þráinsson, fyrrverandi prófessor.

Til glöggvunar skal ég nefnda örfá atriði sem fram komu í máli þremenninganna:

1. Við höfum lengi sagt: „Allir velkomnir“ – í svokölluðu kynhlutlausu karlkyni. Að baki liggur „arfleifð indóevrópska samkynsins“. Þetta hefur ekkert með líffræðilegt kyn að gera frekar en orðin gestur og læknir: Við segjum t.d.: „Það komu margir gestir,“ og eigum við bæði konur og karla.

2. Hugtökin „sjálfgefið kyn“ og „vísandi kyn“ eru hjálpleg í umræðunni: „Heyra allir í mér?“ (sjálfgefið kyn) og „Heyrið þið öll í mér?“ (vísandi kyn). En stundum er ekki hægt að velja hér á milli, sbr. spurninguna: „Eru allir mættir?“ Við getum tæplega sagt: „Eruð þið öll mætt?“

4. „Í þessu húsi eru íbúðir fyrir aldraða“ (ekki: öldruð). Málfræðilegt karlkyn er sjálfgefið í dæmum af þessu tagi, sbr.: Ég pantaði borð fyrir fjóra; Margur er ríkari en hann hyggur. Höskuldur Þráinsson spurði: „Getur fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi komist hjá því að túlka karlkynið í dæmum af þessu tagi sem sjálfgefið, þ.e. þannig að það eigi ekkert sérstaklega við karla, sé kynhlutlaust?“

5. Það er mikilvægt að eiga málstaðal sem allir skynja á sama hátt. Breytileiki í kynjanotkun getur valdið misskilningi.

6. Það verður erfitt að venja heila þjóð á nýja notkun málfræðilegra kynja. „Nýlenskan“ felur í sér handstýrða málbreytingu. Þetta nýja mál hefur aldrei verið til, enginn hefur alist upp við það; það hefur enginn beðið um að árþúsunda hefð að baki íslenskunni verði raskað.

Ég hvet ykkur, ágætu lesendur, og þá kannski helst fréttamenn, stjórnmálamenn og auglýsendur, til að fara inn á slóðina https://islenskan.is/malfregnir þar sem fyrrnefndir sérfræðingar hafa orðið.

Að lokum tvennt:

1. Nánast hver einasti viðmælandi fréttamanna talar enn það mál sem hann lærði ómeðvitað í bernsku, hvort sem hann er karl eða kona, ungur eða gamall. Hann segir t.d.: „Það var enginn heima“ (en ekki: „Það voru engin heima“). Hann segir: „Það komu margir í afmælið“ (en ekki: „Það komu mörg í afmælið“).

2. Þeir stjórnmálamenn sem vilja taka nýlenskuna upp eru þegar komnir í vanda: Fylgið hrynur af vinstri grænum sem auglýsa: „Öll velkomin“ – og segja niðurlútir eftir á: „Sárafá mættu“. En atkvæði sópast að Samfylkingunni sem auglýsir: „Allir velkomnir“ – og sendir frá sér frétt að fundi loknum: „Fjölmargir mættu“.

Höfundur er fyrr­ver­andi pró­fess­or í ís­lensku.




Skoðun

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×