Toomey sagði frá þeim gleðifréttum að hún og maðurinn hennar Shane Orr eigi von á erfingja á þessu ári.
Með þessu fá margar frábærar CrossFit konur betra tækifæri til að verða heimsmeistarar í CrossFit íþróttinni.
Toomey hefur unnið sex heimsmeistaratitla í röð og flesta þeirra með miklum yfirburðum. Hún varð tvisvar í öðru sæti á eftir Katrínu Tönju Davíðsdóttur, 2015 og 2016, en hefur síðan sett met með því að vinna sex heimsleika í röð.
Það leit út um tíma að Toomey væri að hætta og orðrómur var um það á lokadegi síðustu heimsleika þegar hún varð fyrsti konan (og karlinn) til að vinna sex heimsmeistaratitla í einstaklingskeppni heimsleikanna.
Toomey gaf ekkert upp en nokkrum mánuðum síðar staðfesti hún það að hún ætlaði að halda áfram keppni.
Það breyttist síðan allt þegar hún varð ólétt.
„Það hefur orðið örlítil breyting á hvernig 2023 tímabilið verður. Við erum mjög spennt að segja frá því að við eigum von á barni,“ skrifaði Tia-Clair Toomey í jólakveðju til fylgjenda sinna á samfélagsmiðlum.
Toomey birti með myndir af sér og eiginmanni sínum með litla barnaskó og það má sjá kúlu á heimsmeistaranum. Hér fyrir neðan má sjá færslu Toomey.