Valur ætlar sér stóra hluti í Bestu deildinni næsta sumar en tapaði óvænt 0-1 fyrir Lengjudeildarliði Fjölnis í kvöld. Frederik Schram, aðalmarkvörður Vals, varði mark Íslands í vináttuleik gegn Svíþjóð í kvöld og var því ekki með. Þá var framherjinn Patrick Pedersen ekki í leikmannahópnum að þessu sinni.
Aðrir lykilmenn – Birkir Már Sævarsson, Elfar Freyr Helgason, Birkir Heimisson, Haukur Páll Sigurðsson, Kristinn Freyr Sigurðsson, Sigurður Egill Lárusson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Guðmundu Andri Tryggvason, Hólmar Örn Eyjólfsson og Aron Jóhannsson – voru allir með. Það breytti engu og Fjölnir vann óvæntan 1-0 sigur.
Í Breiðholti var Fram í heimsókn en Leiknir féll úr Bestu deildinni á síðustu leiktíð. Róbert Hauksson kom hins vegar heimamönnum yfir snemma leiks en Fram svaraði með tveimur mörkum í fyrri hálfleik.
Magnús Þórðarson jafnaði metin og Aron Snær Ingason kom Fram yfir, Í síðari hálfleik bætti Aron Snær við öðru marki sínu og þriðja marki Fram áður en Már Ægisson gulltryggði 4-1 sigur.