„Þetta eru vonbrigði. Við ætluðum að gera betur, en ég tek hatt minn ofan fyrir Haukum. Þær spiluðu óaðfinnanlega í dag,“ sagði Hörður Axel eftir leik.
„Það var ekki fræðilegur möguleiki að eiga við þær miðað við það hvernig þær voru að setja boltann ofan í körfuna.“
Haukar settu tóninn strax í byrjun leiks. „Það kom ekkert á óvart hvað þær voru að gera eða hvernig þær voru að spila. Þær hittu bara úr öllu sem þær köstuðu á körfuna. Þær voru með einhverja 70 prósent þriggja stiga nýtingu og ég hef bara aldrei séð annað eins í körfubolta.“
„Ef þú skýtur þannig, þá áttu skilið að vinna.“
Haukar skutu ótrúlega vel allan leikinn. Þær voru að skjóta 60 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna í hálfleik og enduðu leikinn með 64 prósent þriggja stiga nýtingu.
„Maður hefur ekki séð svona áður. Mörg af þessum skotum voru erfið sköt – ekkert við vörnina að sakast.“
„Þetta er eitthvað sem við við verðum að læra af. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi hópur hjá okkur er í þessari stöðu. Haukar eru að koma hérna í þriðja sinn í röð, en það útskýrir samt ekki alveg að þær séu að skjóta 70 prósent fyrir utan þriggja stiga línuna.“
Keflavík er á toppnum í Subway-deildinni. Mun þetta gera liðið hungraðara fyrir framhaldið í deildinni?
„Þetta mun svíða, alveg klárlega. Hungrið er alveg jafnmikið í byrjun leiks og í lok leiks. Við viljum rosalega gera vel, eins og við höfum verið að gera. Við höldum áfram á okkar vegferð,“ sagði Hörður Axel í lokin.