Ólafur greinir frá því á Instagram-síðu sinni í dag að hann geti ekki tekið frekari þátt í mótinu vegna meiðsla í læri.
„Drauma HM endaði ekki alveg eins og ég hafði vonað, því miður er mótið búið fyrir mig vegna meiðsla á læri. Þvílík upplifun að fá að spila stórmót á sínum heimavelli og með þennan stuðning 💙 Eitthvað sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir og mun aldrei gleyma! Nú mun ég gera eins og restin af þjóðinni og standa við bakið á strákunum því þetta er rétt að byrja,“ skrifaði Ólafur.
Þegar hann talar um sinn „heimavöll“ á hann við Kristianstad Arena en Ólafur var um árabil vinsæll leikmaður sænska liðsins Kristianstad og fyrirliði liðsins.
Ólafur var á varamannabekknum í fyrstu tveimur leikjum Íslands á mótinu en spilaði svo leikinn við Suður-Kóreu sem Ísland vann 38-25.
Elvar Örn Jónsson missti af síðasta leik vegna veikinda og óvíst er með þátttöku hans gegn Grænhöfðaeyjum í dag. Elvar Ásgeirsson kom þá inn í hópinn. Kristján Örn Kristjánsson hefur verið utan hóps.
Næstu leikir Ólafs verða væntanlega í Sviss en þessi 32 ára gamli leikmaður gekk síðasta sumar í raðir svissneska liðsins Amicitia Zürich.