Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, staðfestir í samtali við fréttastofu að árásin hafi átt sér stað.
„Ég get staðfest að það átti sér stað líkamsárás í fangelsinu á Hólmsheiði í gærkvöldi. Fangi veittist þar að samfanga með eggvopni. Afleiðingar urðu blessunarlegar litlar en kallaður var til sjúkrabíll og lögregla. Lögregla fer með rannsókn málsins,“ segir Páll.
Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist árásin deilum milli tveggja hópa sem hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum síðustu mánuði. Hóparnir tengjast meðal annars hnífstunguárás sem framin var á skemmtistaðnum Bankastræti Club í nóvember á síðasta ári.